Kaupfélag Árnesinga var stofnað þann 1. nóvember 1930. Stofnfundur félagsins var haldinn á Pósthúsloftinu við Ölfusá.  Óljóst er hversu margir fundarmenn voru en líklega voru þeir í kringum 30. Stofnun félagsins var samþykkt formlega af 27 fundarmönnum.

Kaupfélag Árnesinga tók formlega til starfa þann föstudaginn 2. janúar 1931 með opnun sölubúðar í Sigtúnum.

Á aukafundi Kaupfélags Árnesinga þann 11. september 1931 var samþykkt að sækja um inngöngu í Samband íslenskra samvinnufélaga. Með inngöngu í Samband íslenskra samvinnufélaga var kominn sterkur bakhjarl fyrir félagið, bæði varðandi vöruinnkaup og gjaldfresti en ekki síður varandi ráðgjöf og fjárhagslega aðstoð ef í harðbakkan slægi.

Framan af var róðurinn oft þungur  bæði vegna misjafns árferðis og ekki síður af völdum erfiðra samgangna og hafnleysis. Þrátt fyrir áföll og erfiðleika í fyrstu, óx Kaupfélagi Árnesinga smám saman fiskur um hrygg og þegar komið var fram á miðju síðustu öld var það ásamt öðrum samvinnufélögum á Suðurlandi orðið allsráðandi í verslun, afurðasölu og iðnaði á Suðurlandi.

Þjóðfélagsbreytingar undir lok síðustu aldar voru Kaupfélagi Árnesinga, eins og öðrum kaupfélögum, þungar í skauti. Smám saman týndu kaupfélögin tölunni og Kaupfélag Árnesinga hætti starfsemi um síðustu aldamót.

Close Menu