Samvinna á Suðurlandi
Ritverkið Samvinna á Suðurlandi eftir Guðjón Friðriksson sagnfræðing spannar afar vítt sögusvið, allt frá upphafi félagshyggju í bændasamfélaginu til okkar daga og er verkið í reynd héraðssaga Suðurlands í nútímanum eða frá 19. öld. Sögð er saga allra samvinnufélaga í Árnessýslu, Rangárvallasýslu, Vestur-Skaftafellssýslu og Vestmannaeyjum, ekki aðeins kaupfélaga, pöntunarfélaga og útgerðarsamvinnufélaga með þeirri fjölbreyttu starfsemi sem heyrði undir þau, heldur einnig rjómabúa, áveitufélaga, mjólkurbúa og sláturfélaga. Jafnframt er þróun samgangna gerð ítarleg skil, enda nátengd efninu og í ritinu er mikil persónusaga.
Bókverk þetta kemur út á 90 ára afmæli Kaupfélags Árnesinga haustið 2020. Verkið er í fjórum bindum og kostar í býðst félagsmönnum á 20.000 kr.
Í fyrsta bindi segir m.a. frá fyrstu vísum að félagshyggju sunnlenskra bænda, samgöngum á 19. öld, sauðagullinu og siðan þeim félögum sem stofnuð voru um verslunarmál í kringum aldamótin 1900. Þar má nefna Kaupfélag Árnesinga hið eldra, Stokkseyrarfélagið, Gestsfélagið, Heklu og Ingólf. Auk þess er sagt frá stofnun Sláturfélags Suðurlands.
Í öðru bindinu er m.a. rakin saga kaupfélaga í Vestmannaeyjum og Vestur-Skaftafellssýslu. Auk þess er sagt frá litlu ein stórhuga kaupfélagi í Grímsnesi sem náði, þrátt fyrir endasleppan rekstur, að verða brautryðjandi í vöruflutningum.
Í þriðja bindi er saga Kaupfélags Árnesinga rakin en félagið varð ásamt Mjólkurbúi Flóamanna sá miðpunktur sem landbúnaður í sýslunni hverfðist um.
Í fjórða bindi er m.a. rakin saga Kaupfélaga í Rangárþingi auk þess sem sagt er frá Kaupfélaginu á Höfn. Þá er í fjórða bindinum skrá yfir nöfn manna og staða þeirra, heimildaskrá og fleira ítarefni.
Ritin eru ríkulega myndskreytt.